Sálfræðinemar hafa orðið

föstudagur, maí 13, 2005

Ályktun frá Félagi prófessora og Félagi háskólakennara um fjárhagsvanda Háskóla Íslands (12.05.2005)

Ég leyfi mér að birta þetta í heild sinni því ég er algjörlega sammála þessu. Textinn er tekinn af Hi.is.

- - - - - - - - - -

Félag prófessora og Félag háskólakennara fagna framkominni stjórnsýsluúttekt ríkisendurskoðunar á Háskóla Íslands. Úttektin leiðir í ljós að Háskólinn býr við fjársvelti og að fjárveitingar til hans eru langt undir því sem tíðkast meðal sambærilegra háskóla í nágrannalöndunum.

Fjárveitingar ríkisins til Háskólans á hvern nemanda hafa farið lækkandi á undanförnum árum og framlag til rannsókna hefur sömuleiðis lækkað að krónutölu milli ára. Þessar staðreyndir eru í hróplegri mótsögn við þann metnað og árangur sem Háskólinn hefur sýnt við uppbyggingu framhaldsnáms og rannsókna. Það er óumdeilanlegt að Háskóli Íslands ber höfuð og herðar yfir aðra háskóla í landinu á sviði framhaldsnáms og rannsókna. Sinnuleysi stjórnvalda gagnvart skólanum er orðin alvarlegasta ógnunin við framtíðarupppbyggingu hans sem rannsóknaháskóla.

Félag prófessora og Félag háskólakennara krefjast þess að stjórnvöld komi að uppbyggingu Háskólans með stórauknu framlagi til rannsókna og kennslu. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að gera raunhæfan rannsóknasamning nú þegar. Í öðru lagi þarf að endurskoða fjárveitingar til kennslu í grunnnámi og gera sérstakan kennslusamning um meistara- og doktorsnámið sem tekur mið að þeirri staðreynd að framhaldsnám er mun kostnaðarsamara en grunnám.

Ljóst er að ef stjórnvöld bregðast ekki við fjárhagsvanda Háskóla Íslands mun fagleg uppbygging hans staðna.