Sálfræðinemar hafa orðið

föstudagur, september 16, 2005

Fjölhæfni kvenna

Nýlega fór ég að velta fyrir mér hversvegna konur væru mönnum fjölhæfari, þær geta gert tvo hluti í einu. Ef til vill tengist þetta eitthvað taugabrautum í heila og jafnvel annarsstaðar í líkamanum.

Nýlega lærði ég hvað athygli er mikilvæg í tengslum við skynjun; jafnframt að athygli og einbeiting geti haft áhrif á sársaukaskynjun. Þá datt mér í hug að ég væri kominn með merkilega hugmynd: kannski hefur barnsburður kvenna leitt af sér meiri athyglisgetu vegna þarfarinnar til sársaukastjórnunar (voðalega erfitt að segja þetta þannig að hljómi ekki eins og tilgangsskýring, þetta á allavega ekki að vera slík!). Þá gæti aukinn hæfileiki til að gera tvennt i einu verið fylgifiskur þess. Þar með gæti munur kynjanna verið taugafræðilegur og hægt að mæla hann, meta, skrifa ritgerðir og halda voðalega skemmtilega fyrirlestra sem féllu afskaplega vel í kramið hjá femínistum.

En svo fattaði ég allt í einu, konur og menn eru ekkert frábrugðin að þessu leiti. Einhversstaðar heyrði ég að karlar hugsi um kynlíf á um 15 sekúndna fresti, fjórum sinnum á mínútu!! Karlar geta gert tvennt í einu. Þeir eru bara svo uppteknir af því að hugsa um kynlíf, ímynda sér það með þeim sem eru í sjónmáli við þá, dreyma um það etc. Við erum sumsé alltaf að gera tvennt: það sem við erum að gera þá og þá og að hugsa um kynlíf. Vandamálið er að við getum ekki gert ÞRENNT í einu, en ég hef heldur ekki heyrt neinn tala um að konur geti það ...